Innlent

Þrír handteknir í tengslum við kannabisrækt í Þykkvabæ

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Lögreglan á Hvolsvelli handtók í gær þrjá menn á þrítugsaldri í tengslum við stóra kannabisverksmiðju í Þykkvabæ. Mennirnir hafa allir komið við sögu lögreglu áður.

Lögreglan á Hvolsvelli fann á mánudagskvöldið kannabisverksmiðju í iðnaðarhúsnæði í Þykkvabæ. Um 500 kannabisplöntur voru í ræktun, bæði fullvaxnar og græðlingar. Allur tiltækur búnaður til ræktunar var á staðnum, hitalampar og sjálfvirkt vökvunarkerfi.

Ræktunin var vel falin í húsnæðinu en það hafði verið undir smásjánni hjá lögreglunni á Hvolsvelli og rannsóknardeildinni á Selfossi um nokkurt skeið.

Í gær voru svo þrír menn handteknir vegna málsins. Þeir eru þrítugsaldri og koma frá Reykjavík. Þeir hafa allir komið við sögu lögreglu áður í tengslum við fíkniefnabrot. Þeir eru enn í haldi lögreglu og verða þeir yfirheyrðir fram eftir degi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×