Innlent

Ríkisstjórnin með viðamiklar breytingar í burðarliðnum

Mynd/GVA
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að ráðast í viðamiklar breytingar og endurskipulagningu á verkefnum ráðuneyta og stofnana. Markmiðið með breytingunum er að nýta fjármuni betur og að forgangsraða í ríkisrekstrinum með nýjum hætti og verja grunnþjónustuna, að fram kemur á vef forsætisráðuneytisins. Landinu verður skipt upp í 5-6 svæði.

Meðal annars verður Varnarmálastofnun lögð niður í núverandi mynd, héraðsdómstólar sameinaðir í einn, lögregluembættum fækkað og heilbrigðisstofnunum fækkað.

„Ljóst er að þær breytingar sem ráðast þarf í á næstu misserum eru m.a. að fækka ráðuneytum og ríkisstofnunum með sameiningum og breytingum á skipulagi," segir á vef ráðuneytisins. Ennfremur segir að það muni hafa í för með sér breytingar á núverandi vinnuaðferðum og fjölda og samsetningu starfsfólks á ákveðnum sviðum ríkisrekstrar.

„Því er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að allir þeir sem nú vinna hjá ríkinu sinni sömu eða sams konar störfum eftir að endurskipulagning hefur farið fram."

Þá verður landinu skipt upp í 5-6 svæði og stefnumótun og áætlanagerð í ákveðnum málaflokkum munu taka mið af þeirri skiptingu. „Þessi uppskipting mun einnig í sumum tilvikum hafa áhrif á uppbyggingu og framtíðarskipulag opinberrar þjónustu um allt land sem og á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×