Innlent

Gamli tíminn enn í utanríkisráðuneytinu

Birkir Jón Jónsson og Össur Skarphéðinsson.
Birkir Jón Jónsson og Össur Skarphéðinsson.
Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag gamla tímann enn vera í gildi í utanríkisráðuneytinu og það væri undir ráðherra komið og hans hugarflugi hverjir væru ráðnir sem sendiherrar. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segist ekki hafa hugleitt hvort auglýsa eigi eftir sendiherrum.

Í máli sínu vísaði Birkir til þess að í lögum í um Seðlabankann er kveðið á um að auglýsa ber stöðu seðlabankastjóra. Birkir sagði mikilvægt að innleidd verði ný vinnubrögð í stjórnsýslunni þannig að hér eftir verði sendiherrar ráðnir á grundvelli verðleika, starfsreynslu og menntunar.

,,Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugleitt þetta," sagði Össur en bætti við að sér fyndist tillagan athyglisverð og það væri að minnsta kosti einnar messu virði að skoða hana rækilega. Hann lofaði Birki að tillagan verði tekin til skoðunar í utanríkisráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×