Enski boltinn

Crespo var enginn labbakútur

Hernan Crespo var ekkert "flopp" að mati blaðamanns Times
Hernan Crespo var ekkert "flopp" að mati blaðamanns Times NordicPhotos/GettyImages

Pistlahöfundurinn Gabriele Marcotti hjá Times skrifar áhugaverðan pistil á netsíðu blaðsins í dag.

Í pistlinum furðar Marcotti sig á því af hverju kaup Chelsea á Argentínumanninum Hernan Crespo séu almennt álitin einhver verstu kaup í sögu félagsins.

Rétt er að nafn Crespo hefur átt það til að dúkka upp þegar talað er um stórstjörnur sem keyptar hafa verið dýru verði til Englands. Hann er enda einn af dýrustu leikmönnum sögunnar þegar heildarkaupverð hans er lagt saman.

Crespo kostaði vissulega skildinginn þegar Chelsea keypti hann fyrir tæpar 17 milljónir punda frá Inter Milan á Ítalíu, en þeir sem gagnrýna hann fyrir lélega markaskorun verða líklega að athuga málið betur.

Crespo náði aldrei að festa sig almennilega í sessi hjá Chelsea og ekki þótti honum enski maturinn góður, en það kom ekki í veg fyrir að hann mætti í vinnuna.

Argentínumaðurinn spilaði 2812 mínútur í úrvalsdeildinni og skoraði á þeim tíma 20 mörk samkvæmt úttekt Marcotti. Það gerir mark á hverjum 140 mínútum eða þar um bil.

Betra markahlutfall en Robinho og Ronaldo

Þegar þessi tölfræði er svo borin saman við helstu markaskorara úrvalsdeildarinnar í dag, kemur í ljós að Crespo var hreint ekki að gera slæma hluti.

Þannig hefur markahæsti leikmaður deildarinnar, Nicolas Anelka hjá Chelsea, skorað mark á hverjum 139,5 mínútum. Það er mjög svipað markahlutfall og Crespo var með hjá Chelsea á sínum tíma.

Þeir Robinho hjá Chelsea (1 mark á 157 mín), Cristiano Ronaldo hjá Man Utd(1 mark á 160 mín) og Gabriel Agbonlahor hjá Aston Villa (1 mark á 223 mín) eru svo með lakara markahlutfall en Crespo.

Það er því líklega rétt sem Marcotti skrifar í pistli sínum. Ætli sér einhver að kalla Crespo "flopp" eða slæm kaup, er það líklega full djúpt í árina tekið þó leikmaðurinn hafi kostað væna fúlgu á sínum tíma.


























Fleiri fréttir

Sjá meira


×