Innlent

Slökkviálfarnir eru aðalpersónur í nýrri bók slökkviliðsmanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Slökkviálfarnir Logi og Glóð og illvirkinn Brennu-Vargur eru aðalpersónur í nýrri myndskreyttri bók sem Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hefur gefið út. Slökkviliðsmenn munu færa átta ára börnum um allt land bókina að gjöf í Eldvarnaátakinu sem stendur yfir næstu vikuna en þá heimsækja slökkviliðsmenn alla grunnskóla landsins.

„Bókin ber heitið Brennu-Vargur og er spennusaga. Logi og Glóð koma óvænt fram á sjónarsviðið þegar heimili þeirra eyðist í eldi. Sigfinnur slökkviliðsstjóri tekur þau upp á arma sína og býður þeim að búa í slökkvistöðinni í Bænum, þar sem sagan gerist. Systkinin gerast þá aðstoðarmenn slökkviliðsins enda eru þau búin þeim hæfileika að geta vaðið eld og brennistein eins og ekkert sé. Í ljós kemur að Brennu-Vargur gengur laus í Bænum. Hann er fjarskyldur ættingi Loga og Glóðar og hefur ekkert gott í hyggju. Þegar Brennu-Vargur lætur til skarar skríða á ný reynir mjög á snarræði og hugrekki Loga og Glóðar," segir í lýsingu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna um bókina.

Höfundar bókarinnar, þau Garðar H. Guðjónsson, Halla Sólveig Þorgeirsdóttir og Þrúður Óskarsdóttir, gerðu bókina að beiðni LSS. Vonir LSS standa til þess að börnin og foreldrar þeirra geti haft bæði gagn og gaman af bókinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×