Lífið

Leikarar í fári vegna leka af fjöldapóstlista

Varar leikara eindregið við vafasömum prentmiðlum og sparar hvergi stóru orðin.
Varar leikara eindregið við vafasömum prentmiðlum og sparar hvergi stóru orðin.

„Það var stjórnarfundur hjá félaginu í morgun [í gær] og það sem þar fór fram er trúnaðarmál,“ segir Björn Ingi Hilmarsson stjórnarmaður í Félagi íslenskra leikari (FIL).

Fréttablaðið sagði af afar mikilli óánægju sem birtist í bréfi sem Edda Björgvinsdóttir setti á póstlista FIL þar sem hún varaði leikara við að tala við „vafasama prentmiðla” og á þar vísast við DV. Edda segir: „...það er komið algjörlega aftan að ykkur, þið gerð að fíflum og niðurlægð með samhengislausum, heimskulegum og villandi forsíðutexta og ömurlegum fyrirsögnum.“ Í öðru bréfi Eddu, sem Björn Ingi sendi áfram á póstlistann, undrast hún mjög að bréfið hafi ratað til fjölmiðla og vill meina að í örfrétt blaðisins þar sem vakin er athygli á óánægju sem birtist í fyrra bréfi sé gert lítið úr henni. Björn Ingi undrast mjög að þessi bréf séu í höndum Fréttablaðsins og telur um trúnaðarmál að ræða.

Í seinna bréfi Eddu ítrekar hún þá skoðun sína að fjölmiðlar bókstaflega níðist á leikurum: „Við vitum öll um afar marga í okkar stétt sem hafa verið niðurlægðir oftar en einu sinni á forsíðum og baksíðum blaða og tímarita þegar þeir hafa látið tilleiðast að leyfa fjölmiðlafólki að opna sálarkirnur sínar, í þeirri von að vakin verði athygli á einhverju leikverki, bíómynd, námskeiði etc. sem okkur er uppálagt að standa við bakið á, m.a. með því að þiggja viðtöl í hinum ýmsu fjölmiðlum,“ skrifar Edda.

Í klausu sem fylgir bréfinu upplýsir Björn Ingi félagsmenn um að málið verði tekið fyrir á stjórnarfundi. Í samtali við Fréttablaðið vill hann ekki upplýsa hvort ályktunar og/eða aðgerða sé að vænta frá félaginu. Hann lýsti jafnframt þeirri skoðun sinni að hann teldi fjöldapóst til félagsmanna FIL vera einkamál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.