Erlent

Guantanamo í samræmi við Genfarsáttmálann

Binyam Mohamed við komuna til Bretlands í gær.
Binyam Mohamed við komuna til Bretlands í gær. MYND/AP
Bandaríkjaher segir að aðbúnaður og meðferð fanga í Guantanamo-fangabúðunum á Kúbu sé í samræmi við ákvæði Genfarsáttmálans. Obama Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað að búðunum skuli lokað innan árs. Einum Guantanamofanga var sleppt í gær og hann sendur til Bretlands.

Binyam Mohamed er frá Marokkó en búsettur í Bretlandi. Hann hefur mátt dúsa í Guantanamo fangabúðunum í rúm fjögur ár. Þangað sem hann var fluttur eftir að hann var handtekinn í Pakistan grunaður um aðild að hryðjuverkum. Hann var ákærður fyrir að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk í Bandaríkjunum. Fallið var frá þeirri ákæru í október.

Mohamed segist hafa mátt sæta pyndingum frá því hann var tekinn höndum 2002 en hann hafi verið fluttur víðar áður en hann hafi verið færður í Guantanamo fangabúðirnar í september 2004. Mohamed kom til Lundúna í gær. Lögfræðingar á hans vegum reyna nú að fá leynd aflétt af gögnum sem eru sögð sína að Bandaríkjamenn, með vitneskju Breta, hafi sent Mohamed til Marokku þar sem vitað hafi verið að hann myndi sæta pyndingum. Mohamed segist hafa sætt pyndingum þar og í Pakistan og Afganistan áður en til Kúbu hafi verið komið. Bandaríkjamenn hafi beitt hann illri meðferð til að reyna að fá staðfestan grun sinn um aðild hans að hryðjuverkum.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur fyrirskipað að Guantanamo fangabúðunum verði lokað innan árs. Í morgun var birt skýrsla frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu þar sem fullyrt er að meðferð fanga og aðbúnaður í fangabúðunum sé í samræmi við þriðja Genfarsáttmálann um meðferð stríðsfanga.

Lagt er til að gerð verði þó breyting á ýmsu í fangabúðunum áður en þeim verði lokað. Föngum verði sem dæmi leyft að eiga samskipti líkt og í öðrum fangelsum víða um heim og að fangar verði ekki settir í einangrun nema brýna nauðsyn beri til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×