Íslenski boltinn

Jónas skorar á Bjarna að fórna hárinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Bjarni Guðjónsson.
Bjarni Guðjónsson. Mynd/E. Stefán

KR-ingarnir Jónas Guðni Sævarsson og Bjarni Guðjónsson ræddu það mikið í vetur að vera með veðmál um hvor þeirra yrði á undan að skora í Pepsi-deildinni.

Var talað um að Bjarni þyrfti að fórna hárinu ef Jónas skoraði á undan en ef Bjarni myndi skora á undan átti Jónas að láta aflita á sér hárið og vera þannig í viku.

Jónas Guðni skoraði sigurmark KR í gær og hann skorar á Bjarna að láta hárið flakka þó svo hann hafi ekki þorað í veðmálið.

„Það er rétt hjá Bjarna að ég tók ekki í hendina á honum en við ræddum þetta mikið. Ég veit ekki af hverju ég tók ekki í hendina á honum. Ég skora samt á hann að láta hárið fjúka, tala nú ekki um þar sem ég skoraði sigurmarkið," sagði fyrirliðinn Jónas Guðni.

Bjarni segir ekki standa á sér í þessum efnum.

„Ég var tilbúinn en Jónas þorði ekki. Hann fékk ekki leyfi hjá konunni sinni. Þess vegna fór veðmálið út um þúfur," sagði Bjarni en Jónas segir það ekki vera alveg rétt.

„Ég ræddi þetta við konuna og hún sagði að ég mætti gera það sem ég vildi. Hún var samt augljóslega ekkert mjög hrifin af þessu."

Bjarni skorar því á Jónas að taka aftur upp þráðinn og semja um nýtt veðmál. Hann sé tilbúinn ef Jónas þori.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×