Innlent

Mannréttindadómstóll Evrópu vísar tölvupóstmáli frá

Valur Grettisson skrifar
Jónína Benediktsdóttir í réttarsal.
Jónína Benediktsdóttir í réttarsal.

„Það er búið að hafna því," segir Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Jónínu Benediktsdóttur, en Mannréttindadómstóll Evrópu er búinn að hafna því að taka tölvupóstmálið svokallaða til efnislegrar meðferðar.

Upphaf málsins má rekja til fréttaraðar Fréttablaðsins þar sem birt voru drög úr tölvupóstsamskiptum Jónínu Benediktsdóttur við Styrmi Gunnarsson, þáverandi ritstjóra Morgunblaðsins.

Sjálf kærði Jónína birtingu póstanna og fékk lögbann sett á þá. Fréttablaðsmenn vildu meina að málið varpaði ljósi á aðdraganda þess að Baugsmenn voru ákærðir af ríkinu. Jónína sagði birtingu póstanna grófa atlögu að einkalífi sínu.

Síðar átti hún eftir að tapa málinu í Hæstarétti Íslands. Hún gafst þó ekki upp og kærði málið áfram til Mannréttindadómstóls Evrópu. Það var svo á föstudaginn síðasta sem Hróbjarti barst póstur - málinu hefur verið hafnað.

Sjálfur var Hróbjartur ekki búinn að fara yfir forsendurnar sem urðu til þess að málinu var vísað frá.

Ekki náðist í Jónínu við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×