Innlent

Nytjamarkaðir spretta upp

Nytjamarkaðir spretta nú upp eins og gorkúlur í kreppunni. Handboltastjarnan Geir Sveinsson er í þann mund að setja einn slíkan á fót í 1000 fermetra húsnæði og hvetur fólk til að koma bæði notuðum og nýjum svokölluðum "2007 vörum" í verð.

Já svo virðist sem fólk sjái mýmörg tækifæri í kreppunni um þessar mundir. Nytjamarkaðir hafa ekki beint verið þeir vinsælustu í góðærinu og var Góði hirðirinn lengi vel sá eini, en nú rísa útsölu-og nytjamarkaðir um alla borg. Handboltastjarnan Geir Sveinsson ásamt fleirum hyggst setja einn slíkan á fót sem kallast Umboðssalan. Hann verður til húsa við Smáratorg í 1000 fermetra húsnæði og voru fyrstu vörurnar að berast í hús í dag.

Fólk getur farið inn á heimasíðuna umboðssalan.is og komið með allt milli himins og jarðar bæði notað og nýtt. Eigendur ákveða verðið sjálfir og starfsfólk markaðarins annast söluna. 33% af söluverði verða tekin í umboðslaun.

Annar nytjamarkaður var settur á fót í Mörkinni í byrjun febrúar. Eigandinn Jón Halldór Bergsson segir hann hafa gengið eins og í sögu. Fólk sé enn að kaupa þrátt fyrir efnahagsástandið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×