Innlent

Steingrímur J. Sigfússon: "Nei, við erum vinir"

Þegar Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, var spurður hvort það væri gjá á milli hans og Ögmundar Jónassonar eða Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, þingflokksformanns Vinstri grænna, í kvöldfréttum RÚV svaraði hann einfaldlega: „Nei, við erum vinir.

Steingrímur var á leiðinni á átakafund þingflokks Vinstri grænna í gömlu Moggahöllinni í miðborg Reykjavíkur þegar hann lét ummælin falla.

Mikill órói hefur verið innan þingflokksins síðan Ögmundur Jónasson sagði af sér ráðherradómi á miðvikudaginn í síðustu viku. Það gerði hann vegna djúpstæðs ágreinings varðandi Icesave málið.

Steingrímur er nýkominn heim frá Tyrklandi þar sem hann sat á árlegri ráðstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann mun gera grein fyrir því sem fram fór á milli hans og forsvarsmanna sjóðsins þingflokksfundinum. Í kvöldfréttum RÚV sagðist hann ekki telja sig hafa farið erindaleysu.

Þá verður helst rætt um ríkisstjórnarsamstarfið en gjá hefur myndast á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna vegna Icesave málsins. Forsvarsmenn beggja flokka hafa þó sagt í fjölmiðlum undanfarna daga að samstarfið haldi.

Búist er við að þingflokksfundurinn verði langur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×