Innlent

Fullyrða að ný gjöld aftri endurreisn

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir Samtök aðila í atvinnurekstri vara við auknum álögum á atvinnulífið sem veikja muni fyrirtækin.
Fréttablaðið/Vilhelm
Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir Samtök aðila í atvinnurekstri vara við auknum álögum á atvinnulífið sem veikja muni fyrirtækin. Fréttablaðið/Vilhelm

„Samtök aðila í atvinnurekstri vara við þeirri skattastefnu stjórnvalda að leggja nýjar tegundir gjalda á atvinnureksturinn og hvetja til þess að megináherslan verði lögð á uppbyggingu og sköpun starfa,“ segir í ályktun Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir atvinnurekendur vísa til þess að Jóhanna Sigurðardóttir forsætis­ráðherra boðaði fyrir nokkrum dögum auknar álögur á atvinnulífið. Nánar sjáist þó hvað um sé að ræða þegar fjárlagarumvarpið líti dagsins ljós.

„Það er erfitt að sjá hvernig atvinnulífið getur staðið undir frekari búsifjum. Það er skammgóður vermir í átt að markmiðum um endurreisn og öflugt velferðar­kerfi vegna þess að á endanum stendur atvinnulífið undir velferðarkerfinu,“ segir Finnur.

Í ályktun SA og VÍ segir að stórauknar skattaálögur á atvinnulíf vinni gegn endurreisn hagkerfisins, hærra atvinnustigi og uppbyggingu sterks og sjálfbærs velferðarkerfis. Nýir skattar á borð við orku-, umhverfis- og auðlindaskatta leggist á kostnað fyrirtækja en verði ótengdir afkomu.

„Slík skattheimta dregur úr samkeppnishæfni fyrirtækjanna gagnvart erlendum keppinautum og möguleikum þeirra til þess að hafa starfsmenn í vinnu og greiða laun. Verði þessum áformum hrint í framkvæmd er veruleg hætta á því að þeir fjárfestingarkostir sem erlend fyrirtæki hafa haft til skoðunar hér á landi verði endur­metnir og hugsanlega slegnir af,“ segir í ályktuninni og þar er einnig varað við hækkun fjármagnstekjuskatts:

„Trúverðugleiki landsins er nú þegar laskaður og fátt sem dregur erlenda fjárfesta hingað til lands. Aðgerðir sem rýra rekstrar- og skattaumhverfi fyrirtækja frekar munu því verða enn eitt skref í átt frá settu marki um efnahagslega endurreisn. Sjaldan hefur þörfin fyrir erlenda fjárfestingu verið ríkari og á sama tíma vinna stjórnvöld markvisst gegn slíkum fjárfestingum.“

Finnur segir að ef fjárfestingar­geta atvinnulífsins verði skert minnki möguleikar þess til að halda uppi atvinnustiginu. „Þessar kerfisbreytingar eru hryssings­legar kveðjur til þeirra erlendu aðila sem hafa sýnt einhvern áhuga á fjárfestingum eða fjármögnun hér. Maður myndi halda að núna væri einmitt sá tími sem maður þyrfti á gagnstæðu viðhorfi að halda,“ segir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×