Innlent

Lyftustopp í Hlíðarfjalli: Fólkið komið niður

Frá Hlíðarfjalli
Frá Hlíðarfjalli
Stólalyftan í Hlíðarfjalli stoppaði um 14:00 í dag. Björgunarsveitin var kölluð á vettvang þegar ákveðið var að ná fólkinu niður en um 200 manns voru í lyftunni þegar hún stoppaði. Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli segir að engin hætta hafi verið á ferðum þó einhverjir hafi eflaust fengið um sig hroll.

„Lyftan stoppaði og það var ákveðið að kalla til björgunarsveitina til þess að aðstoða okkur með sigstóla til þess að ná fólkinu niður. Það var aldrei nein hætta á ferðum en svona tekur nokkurn tíma," segir Guðmundur en ákveðið var að ná fólkinu niður eftir um tuttugu mínútur.

Um 10 metrar eru upp í stólana í lyftunni og gekk vel að ná fólkinu niður. Þegar búið var að ná um 90% af fólkinu fór lyftan í gang. Guðmundur segir að lyftan verði komin í gang strax í fyrramálið en gott veður og logn er á svæðinu.

„Skíðalyftur eru jafn öruggar og flugvélar. Það er gætt ítrasta öryggis og þess vegna kölluðum við til björgunarsveitina. Veðrið var hinsvegar gott en einhverjir hafa líklega fengið smá hroll en annars tók fólk þessu með stakri ró."

Nokkuð af fólki er í Hlíðarfjalli en þar fer fram skíðamót öldunga í dag og á morgun.


Tengdar fréttir

Föst í skíðalyftunni í Hliðarfjalli í tvo tíma

Nokkur fjöldi fólks hefur setið fastur í skíðalyftunni í Hlíðarfjalli í nærri tvo klukkutíma. Einhverjir björgunarsveitarmenn úr Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri, voru á svæðinu og hafa hafið aðgerðir til aðstoðar fólkinu og fleiri eru á leiðinni með búnað sem til þarf til að ná fólkinu úr lyftunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×