Innlent

Fleiri börn fá svínaflensu

Svínaflensan er í rénun og fer tilfellum fækkandi um allt land nema á norðausturhorninu. Aldursdreifing tilfella hefur breyst og hefur tíðni aukist meðal barna á aldrinum 0 til 9 ára. Hlutfallsleg fækkun hefur að sama skapi verið í aldurshópi frá 15 til 30 ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Heildarfjöldi innlagna vegna inflúensu er um 170 og þar af hafa 20 manns þurft að dvelja á gjörgæsludeild.

Búið er að dreifa 50.500 skömmtum af bóluefni og von er á 5000 skömmtum til landsins næstkomandi sunnudag. Þessir skammtar fara í dreifingu eftir helgi og í vikunni verður lokið við að bólusetja sjúklinga og hópa sem sinna nauðsynlegri starfsemi.

Stefnt er að því að hefja almenna bólusetningu þann 23. nóvember.

Þá segir í tilkynningunni að vikulega hafi verið haldnir símafundir með sóttvarnalæknum og lögreglustjórum um land allt og hefur þeim verið stýrt frá Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð 14. Fundirnir eru sagðir hafa verið gagnlegir en þar sem faraldurinn sé á undanhaldi hefur verið ákveðið að fækka þeim. Næsti fundur sé boðaður þann 4. desember en fyrr ef aðstæður í þjóðfélaginu breytast.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×