Innlent

Efnahagsmálin eru brýnustu verkefnin

Efnahagsmál eru brýnustu verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Um það eru þingmenn Samfylkingarinnar og VG sammála.

Á hinn bóginn er fyrirséð að dýpst verði á samkomulagi um lausn á Evrópumálunum í viðræðum flokkanna um áframhaldandi stjórnarsamstarf.

Formenn og varaformenn flokkanna ræddust við á þriggja stunda löngum fundi á heimili Jóhönnu Sigurðardóttur í vesturbæ Reykjavíkur í gær og lögðu línur fyrir frekari viðræður næstu daga.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins var fyrst og fremst rætt um praktísk mál en hvorki um hugmyndafræði né áherslur. Þó var tæpt á nokkrum málum, til dæmis Evrópumálum, umhverfismálum og breytingum á stjórnarráðinu og þau, ásamt öðrum, sett í viðræðuáætlun.

Fyrir liggur vilji beggja flokka til að stokka upp verkaskiptingu ráðuneyta og er í því efni horft til sameiningar iðnaðarráðuneytisins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og færslu allra verkefna er lúta að efnahagsmálum úr þremur ráðuneytum, eins og nú er, í eitt.

Lausn efnahagsvandans verður meginverkefni nýrrar ríkis­­stjórnar en Samfylkingin og VG vilja nálgast það með ólíkum hætti. Samfylkingin leggur ríka áherslu á að hið fyrsta verði sótt um aðild að Evrópusambandinu og hefur þá trú að við það eitt vænkist staða lands og þjóðar.

VG lítur á hinn bóginn svo á að nauðsynlegt sé að grípa til margvíslegra efnahagsaðgerða á fyrstu starfsvikum nýrrar stjórnar. Ekki stoði að bíða eftir niðurstöðum viðræðna flokkanna um leiðir í ESB-málinu. Það mál sé enda algjörlega óútkljáð. Þingmenn og forystumenn beggja flokka eru bjart­sýnir á að framhald verði á stjórnarsamstarfinu.

Í herbúðum beggja er þó lýst áhyggjum af Evrópumálunum sem kunni að verða ásteytingarsteinn. Benda Samfylkingarmenn á að þeir geti hæglega snúið sér annað við myndun ríkisstjórnar en VG-liðar segja fylgisaukningu sína til marks um ríkan vilja til að hafa flokkinn áfram við stjórnvölinn.

Nýir þingflokkar stjórnarflokkanna koma saman til fundar í dag og mun Jóhanna Sigurðardóttir ganga að honum loknum á fund forseta Íslands og upplýsa hann um stöðu mála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×