Innlent

Brúðkaup aldarinnar í héraðsdómi: Gögnin föst í Dubai

Valur Grettisson skrifar
Brúðkaup aldarinnar fyrir héraðsdóm.
Brúðkaup aldarinnar fyrir héraðsdóm.

Fyrirtöku vegna skuldamáls Élan production gegn hjónunum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Ingibjörgu Pálmadóttur var frestað í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ástæðan er sú að nauðsynleg gögn var ekki hægt að leggja fram í málinu þar sem þau voru föst í Dubai.

Élan Productions er viðburðarfyrirtæki en það skipulagði brúðkaup Jóns Ásgeirs og Ingibjargar fyrir tveimur árum - oft kallað brúðkaup aldarinnar. Fréttablaðið greindi frá því fyrr í vikunni að Élan hafi séð um alla skipulagningu brúðkaupsins. Þar kom fram að starfsfólk fyrirtækisins hefði flutt heilmargt inn í tilefni af brúðkaupinu, allt frá blómaskreytingum til kokka.

Garðar Thor söng fyrir gesti Fríkirkjunnar en hún hafði verið haganlega skreytt í takt við stíl og smekk brúðhjónanna.

Ekki hefur fengist uppgefið hve há skuldin er. Nauðsynleg gögn sem leggja þurfti fyrir dóm eru í Dubai. Því þurfti að fresta málinu. Lögfræðingur stefnanda, Eiríkur Guðsteinsson, sagði í héraðsdómi að hann þyrfti sennilega að sækja gögnin til London þegar þau kæmu þangað.

Málinu var því aftur frestað, nú til 4. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×