Innlent

Freista þess að bera klæði á vopnin

Þingflokkur Vinstri grænna mun funda seinnipartinn í dag, eftir að Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, kemur til landsins af ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Heimildarmenn Fréttablaðsins telja líklegt að forystumenn flokksins muni freista þess að bera klæði á vopnin á fundinum. Ekki náðist í Steingrím í gær, en Katrín Jakobsdóttir, varaformaður VG, staðfesti að hann muni mæta til fundarins, raskist flugáætlun ekki.

„Ég reikna með að við förum yfir stöðuna og á ekki von á öðru en að allir verði í sáttahug," segir Katrín. Hún segir alveg eins eiga von á löngum og ströngum fundi, þingmenn flokksins ætli að gefa sér þann tíma sem þurfi til að ræða ágreiningsefni.

Ólga hefur farið vaxandi innan þingflokksins undanfarið, og náði hún nýjum hæðum þegar Ögmundur Jónasson sagði af sér sem heilbrigðisráðherra fyrir viku.

Þrátt fyrir óánægju innan flokksins virðast þingmenn VG sammála um að styðja ríkisstjórnina áfram, og ólíklegt þykir að óánægðir þingmenn kljúfi flokkinn.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×