Lífið

Fiðringur til fortíðar í kvöld

dead sea apple Hljómsveitin Dead Sea Apple heldur sína fyrstu tónleika í langan tíma í kvöld.fréttablaðið/valli
dead sea apple Hljómsveitin Dead Sea Apple heldur sína fyrstu tónleika í langan tíma í kvöld.fréttablaðið/valli

Rokksveitin Dead Sea Apple heldur sína fyrstu tónleika í langan tíma á Sódómu Reykjavík í kvöld.

„Þetta er nettur fiðringur til fortíðar. Við höfum ekkert spilað í nokkur ár og það var komin smá pressa á okkur að koma fram,“ segir trommarinn Hannes Friðbjarnarson, sem er einnig meðlimur í Buffi.

Sveitin hefur einnig sent frá sér nýtt lag sem nefnist I Want You Back sem sýnir að hún hefur engu gleymt. Lagið var hljóðritað í tilefni þess að fimmtán ár eru liðin síðan hún gaf út sitt fyrsta lag á safnplötunni Ýkt böst.

Dead Sea Apple var stofnuð í Kópavogi um miðjan síðasta áratug og gaf í framhaldinu út tvær plötur. Á þessum áratug hefur hún gefið út þrjú lög og haldið stöku tónleika. „Við erum allir búnir að þekkjast síðan við vorum tólf ára. Við vorum allir í sama skólanum í vesturbæ Kópavogs og höfum fylgst að síðan þá,“ segir Hannes.

Hljómsveitin var iðin við kolann á sínum tíma og reyndi meira að segja að slá í gegn í Bandaríkjunum. „Við vorum spilandi á þessum gömlu klúbbum eins og Tveir vinir, Rósenbergkjallara og Púlsinum. Síðan reyndum við „meik“-drauminn eins og hinir. Við fórum tvisvar til New York til að spila og leika okkur. Þetta var fyrir tíma Air­waves, netsins, gsm-síma og Loftbrúarinnar. Þetta var bara Visakort og málið dautt,“ segir Hannes og hlær.

Sódóma verður opnuð klukkan 21 í kvöld og stígur Dead Sea Apple á svið klukkutíma síðar. Miðaverð er 1.000 krónur. „Þetta er átaksmúsík. Þetta verður þungt og skemmtilegt,“ segir Hannes og lofar hörku tónleikum. freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.