Innlent

Ögmundur hættur í ríkisstjórninni

Ögmundur Jónasson að loknum fundi í Stjórnarráðinu.
Ögmundur Jónasson að loknum fundi í Stjórnarráðinu.

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra sagði af sér að loknum fundi með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í Stjórnarráðinu fyrir stundu. Um leið lýsti hann yfir eindregnum stuðningi við ríkisstjórn Samfylkingar og VG.

Ögmundur sagði niðurstöðuna eftir fund sinn í Stjórnarráðinu vera þá að hann viki sem ráðherra en hann ætlar að halda áfram sem alþingismaður.

Hann sagðist vonast til þess að ríkisstjórnin myndi lifa sem allra lengst enda sé hann eindreginn stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og sagðist verða það áfram inni á þingi. Hann sagði mikilvægt að ríkisstjórnin talaði einu máli í Icesavemálinu og því hefði niðurstaðan verið afsögn.

Hann sagðist hafa trú á því að Alþingi myndi núna taka á Icesavemálinu og komast að niðurstöðu. „Ég hef alla tíð litið svo á að Icesave og líf ríkisstjórnarinnar séu tveir aðskildir hlutir," sagði Ögmundur.

Hann sagðist ekki hafa hugmynd um hver yrði sinn eftirmaður. „Ég hafði vonast til þess að við hefðum haft framhald á því vinnulagi sem var í sumar þar sem menn litu á þetta stóra mál burt séð frá öllum flokkastjórnmálum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×