Innlent

Sjálfstæðismenn lögðu fram frumvarp um breytingar á skattakerfinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Pétur Blöndal er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Mynd/ Stefán.
Pétur Blöndal er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins. Mynd/ Stefán.
Frumvarp allra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, um að skattleggja séreignasparnað í vörslu lífeyrissjóða og skattleggja innborganir í séreignarsjóði í stað skattlagningar á útgreiðslur, var lagt fram á Alþingi í morgun.

Í greinagerð með frumvarpinu segir að mikilvægt sé að ná niður halla ríkissjóðs þar sem vaxtagreiðslur kunni ella að sliga ríkissjóð til lengri tíma. Það sé skoðun flutningsmanna að ekki sé skynsamlegt að leggja enn þyngri byrðar á atvinnulíf eða einstaklinga í formi skattahækkana eftir þau áföll sem dunið hafa yfir. Ekki sé heldur gæfulegt að ná niður öllum hallanum eingöngu með því að skera niður þjónustu ríkisins þar sem of mikil skerðing vissra þátta kunni að skaða samfélagið varanlega.

Sjálfstæðismenn telja að með skattlagningu séreignarsparnaðar fengi ríkið um 75 milljarða og sveitarfélög um 40 milljarða strax á næsta ári. Þá myndu fást umtalsverðar upphæðir árlega við skattlagningu inngreiðslna eftir það. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja því að ef frumvarpið verði að lögum hafi það í för með sér að skattahækkunartillögur ríkisstjórnarinnar, sem kynna á í dag, verði óþarfar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×