Innlent

Daily Telegraph um Davíð Oddsson: Ekkert mál að fá nýja vinnu

Davíð Oddsson, nýr ritstjóri Morgunblaðsins.
Davíð Oddsson, nýr ritstjóri Morgunblaðsins.

Breska blaðið The Daily Telegraph greinir frá því á vef sínum í kvöld að Davíð Oddsson, fyrrum seðlabankastjóri og forsætisráðherra til þrettán ára, skuli ekki eiga í miklum vandræðum með að fá nýtt starf, þrátt fyrir mikil mótmæli íslensks almennings sem beindust gegn honum þegar hann starfaði í seðlabankanum snemma á árinu.

Í grein sem birtist á vef blaðsins í kvöld, og er skrifuð af Rowena Mason, er rakin saga Davíðs og mótmæla sem beindust að honum sem seðlabankastjóra.

Þá segir í greininni að Davíð hafi verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins þrátt fyrir að hafa verið hrakinn úr sæti seðlabankastjóra fyrr á árinu eftir að þúsundir mótmæltu. Einnig er minnst á þrettán ára setu hans sem forsætisráðherra og meðal annars hafi tímaritið Time valið hann sem einn af 25 einstaklingum í veröldinni sem er ábyrgur fyrir fjármálahruninu.

Svo er vitnað í nafnlausan blaðmann sem mótmælir ráðningu Davíðs.

„Þetta kom verulega á óvart og menn eru óttaslegnir við að nú muni Davíð reyna að endurskrifa söguna," segir hann og bætir við: „Við óttumst að sama valdamikla fólkið sé enn við stjórn."

Daily Telegraph segir einnig frá því að Grapevine hafi heitið því að fylgja ekki fréttum eftir sem skrifaðar eru af Morgunblaðinu á meðan Davíð er ritstjóri.

Þá er farið yfir eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi sem hefur verið í höndum lykilmanna í hruninu. Þannig hafi Björgólfur Guðmundsson og sonur átt Árvakur, en eins og vitað er, þá áttu þeir einnig Landsbankann áður en hann fór í þrot.

Annar lykilmaður í hruninu, Jón Ásgeir Jóhannesson, á 365 miðla, en sjálfur átti hann Glitni fyrir hrun.

Greinina má lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×