Enski boltinn

Arshavin er ekki bjargvættur Arsenal

Rússneski landsliðsmaðurinn Andrei Arshavin náði loksins að skrifa undir samning við Arsenal í gær - sólarhring eftir að félagaskiptaglugginn lokaðist.

Þar með lauk því sem rússneskir blaðamenn hafa kallað Arshavin-sápuóperuna en samningaviðræður milli Arsenal og Zenit í Pétursborg gengu vægast sagt illa þar til samningar náðust í höfn á elleftu stundu.

Daily Mail heldur því fram í dag að nokkrir aðilar á Englandi hafi látið í ljós óánægju sína með það að Arsenal hafi fengið svo langan tima til að ganga frá samningum við leikmanninn, því félagið hefði haft allan tíma í heiminum til að ganga frá málinu á tilsettum tíma.

Þegar kemur að leikmanninum sjálfum, sem reyndar er fjarri því að vera í góðu leikformi að eigin sögn, er ekki gefið að hann sé bjargvættur Arsenal ef marka má tvo kappa sem þekkja til í bransanum.

Þannig segir nafni hans Andrei Kanchelskis, fyrrum leikmaður Manchester United, að Arsenal hafi borgað allt of háa upphæð fyrir hann. Miðjumaðurinn sé í mesta lagi sjö milljón punda virði - ekki tólf.

"Það er allt annar leikstíll á Englandi en hann á að venjast og það verður mjög erfitt fyrir hann að aðlagast honum," sagði Kanchelskis.

Alexei Smertin, fyrrum leikmaður Chelsea og Fulham, tekur í sama streng. "Fótboltinn í úrvalsdeildinni útheimtir meiri hraða og meiri kraft og þar verða menn að vera toppíþróttamenn til að ná árangri," sagði Smertin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×