Innlent

Bíllinn seig undir þýfinu

Tveir Litháar voru handteknir á Suðurlandsvegi, austan við Selfoss undir morgun, á drekkhlöðnum bíl af þýfi. Þar voru meðal annars þrír flatskjáir sem enn báru skráningarnúmer lögreglu, eftir að lögregla lagði hald á þá í þýfi annarra þjófa fyrir þremur vikum.

Samkvæmt númerunum eru skjáirnir úr bústöðum í Ásahverfi og Þverlág í grennd við Flúðir. Auk þess var mikið af áfengi í bílnum, verkfæri, hljómflutningstæki og ýmislegt fleira. Bíllinn var svo hlaðinn að hann var siginn á fjöðrunum og vakti það athygli lögreglumanna. Mennirnir gáfu þá skýringu á ensku, að þeir hefðu fundið þetta á veginum, en síðan misstu þeir málið og verða yfirheyrðir með aðstoð túlks í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×