Innlent

Kannski eðlilegast að Ögmundur stofni eigin flokk

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gunnar Helgi Kristinsson segir að Ögmundur ætti ef til vill að koma fram sem með sérstakan flokk. Mynd/ Anton.
Gunnar Helgi Kristinsson segir að Ögmundur ætti ef til vill að koma fram sem með sérstakan flokk. Mynd/ Anton.
Það væri kannski eðlilegast að Ögmundur Jónasson og skoðanasystkini hans í VG kæmu fram eins og sérstakur smáflokkur og semdi við ríkisstjórnina sem slíkur, segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Gunnar Helgi segir að með því að hafa sagt af sér embætti úr ríkisstjórninni hafi Ögmundur komið í veg fyrir að hægt væri að beygja hann til hlýðni. „Það þýðir í raun og veru að hann heldur ríkisstjórninni sem gísl," segir Gunnar Helgi. Hafi Ögmundur fólk eins og Ásmund, Lilju, Guðfríði Lilju og Atla með sér þá haldi hann lífi ríkisstjórnarinnar í hendi sér og geti sett henni hver þau skilyrði sem honum sýnist í hvaða máli sem honum sýnist. „Hvort sem það er niðurskurður á spítölunum eða Icesave, eða hvað það á að vera," segir Gunnar Helgi.

„Þá væri kannski eðlilegast að hann kæmi fram sem sérstakur flokkur og semdi við ríkisstjórnina um það. Hann er með þessu að reyna að taka sér vald sem er oft vald smáflokka. Þeir standa á vogarstönginni og hafa vald ríkisstjórna í hendi sér og ná þess vegna oft áhrif á ríkisstjórnir sem eru langt umfram þeirra stærð, styrk eða fylgi," segir Gunnar Helgi. Hann nefnir Radikal Venstre í Danmörku sem dæmi um slíkan flokk en einnig Framsóknarflokkinn.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra mun flytja stefnuræðu sína á Alþingi í kvöld. Gunnar Helgi telur að ákjósanlegt væri fyrir Jóhönnu að geta sagt frá samskiptum stjórnvalda og erindreka vegna lána og skulda. „Það fer náttúrlega eftir því hvernig Steingrími gengur þarna úti í Istanbul hvernig það er," segir Gunnar Helgi. „En annars vitum við hvað er í fjárlögunum og hún hlýtur auðvitað að beina athyglinni töluvert að þeim. Það eru erfiðir tímar framundan," bætir Gunnar Helgi við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×