Erlent

Bletturinn á Júpíter fer minnkandi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Júpíter.
Júpíter. MYND/NASA

Rauði bletturinn á plánetunni Júpíter hefur minnkað um allt að 15 prósent á nokkrum árum.

Bletturinn er eitt helsta kennileiti þessarar langstærstu reikistjörnu sólkerfisins en Júpíter er ellefu sinnum stærri en jörðin. Vísindamenn við Kaliforníuháskólann í Berkeley hafa nú vakið athygli á því að bletturinn hafi farið ört minnkandi frá árinu 1996 og nemi sú minnkun allt að einum kílómetra á dag.

Philip Marcus og félagar hans við stjörnufræðideild háskólans hafa útbúið forrit sem þeir nota til að fylgjast með breytingum á stærð blettsins en það er allt annað en auðvelt þar sem miklir stormar geisa alla jafna á blettinum og torvelda nákvæma skoðun. Hvorki hefur þeim þó tekist að skýra til hlítar minnkunina né hinn rauða lit blettsins sem er þó misrauður en hann á það til að dofna annað slagið.

Stjörnufræðingar hafa fylgst grannt með blettinum á Júpíter allar götur síðan 1870 en það er fyrst núna upp á síðkastið sem breytingar hafa orðið á fyrirbærinu að einhverju ráði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×