Erlent

Vilja vopnasölubann til Ísrael og Palestínu

Ísraelskir hermenn á Vesturbakkanum 20 febrúar sl.
Ísraelskir hermenn á Vesturbakkanum 20 febrúar sl. MYND/AP
Alþjóðlegu mannréttindarsamtökin, Amnesty International, vilja að Sameinuðu þjóðirnar setji á vopnasölubann til Ísrael og Palestínu. Samtökin saka Hamasliða og Ísraelsmenn um notkun vopna sem beinast fyrst og fremst að saklausum borgurum.

Amnesty sakar Ísraelsmenn meðal annars um að nota hvítar fosfór sprengjur á þéttbyggð svæði. Svokallað hvítt fosfór er notað til að mynda reyk á vígvöllum. Notkun efnisins í þéttbýli er bönnuð samkvæmt alþjóðlegum samningum en samtökin segja að Ísraelsmenn hafi notað efnið margsinnis í árásum sínum á Gazaströndina í lok síðasta árs.

Samtökin gagnrýna Ísraelsher einnig fyrir látlausar sprengjuárásir á saklausa borgara. Vopnabúr Ísraelshers er að mestu keypt frá Bandaríkjamönnum.

Þá gagnrýna samtökin eldflaugaárásir Hamasliða á íbúabyggðir í Ísrael en benda hins vegar á að þær árásir hafi ekki reynst eins mannskæðar og árásir Ísraelsmanna.

Báðir aðilar hafi þó gerst sekir um stríðsglæpi. Amnesty hefur sent áskorun til öryggisráðs sameinuðu þjóðanna um að sett verði vopnasölubann á Ísrael og Hamassamtökin.

Ísraelsmenn og talsmenn Hamassamtakanna hafa vísað ásökunum Amnesty á bug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×