Innlent

Fjármálin líklega skoðuð sjö ár aftur í tímann

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Óvíst er hversu langt aftur í tímann fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna verða skoðuð en líklega verður miðað við árið 2002. Forsætisráðherra vill að gerð verði úttekt sem nær aftur til ársins 1999.

Í kjölfar umræðu skömmu fyrir þingkosningarnar í vor um styrki til Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks skipaði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, nefnd sem ætlað er að endurskoða lög um fjármál flokkanna og frambjóðenda þeirra. Nefndinni var falið að fjalla um hugmyndir Jóhönnu um að gerð verði úttekt á fjármálum þeirra allt til ársins 1999.

Ágúst Geir Ágústsson, formaður nefndarinnar, segir að unnið sé að sameiginlegri viljayfirlýsingu um úttekt á fjármálum flokkanna aftur í tímann og ráðgert sé að Ríkisendurskoðun verði falið hlutverk í þeim efnum. Hann á von á því að sú yfirlýsing muni liggi fyrir síðar í mánuðinum.

Þrír fundir hafa verið haldnir frá því að nefndin var skipuð um miðjan maí. Starfi nefndarinnar miðar vel og herma heimildir meðal nefndarmanna að flokkarnir muni allir samþykkja að gerð verði úttekt sem nær aftur í tímann.

Innan nefndarinnar hefur verið rætt að þeim aðilum sem úttektinni er ætlað að ná til sé ekki skylt að geyma bókhaldsgögn nema í sjö ár. Úttektin muni því líklegast ná aftur til ársins 2002. Ekki sé þó útilokað að miðað verði við árið 2003 en þá var kosið til þings.


Tengdar fréttir

Þrír stjórnmálaflokkar tefja endurskoðun laga

Seinagangur Framsóknarflokksins og Frjálslynda flokksins og veldur því að vinna nefndar við endurskoðun laga um fjármál stjórnmálaflokkanna tefst. Flokkarnir áttu að skila tilnefningum sínum í nefndina til forsætisráðherra fyrir 1. maí eða fyrir tæpri viku síðan. Eftir þingkosningarnar 25. apríl var Borgarahreyfingunni boðið að skipa fulltrúa í nefndina og skilaði flokkurinn tilnefningum sínum í dag.

Fjármál stjórnmálamanna rannsökuð tíu ár aftur í tímann

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur skipað nefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða lög um fjármál stjórnmálaflokka. Nefndinni hefur jafnframt verið falið að leiða til lykta hugmyndir Jóhönnu um að Ríkisendurskoðun, í kjölfar lagabreytingar eftir atvikum, verði falið að gera úttekt á fjármálum þeirra stjórnmálaflokka sem átt hafa fulltrúa á Alþingi og frambjóðendum þeirra á árunum 1999 til 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×