Enski boltinn

Valencia vill spila í Meistaradeildinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Antonio Valencia í leik með Wigan.
Antonio Valencia í leik með Wigan. Nordic Photos / Getty Images
Antonio Valencia segir að það sé draumur hans að spila einn daginn í Meistaradeild Evrópu en hann hefur þótt standa sig einstaklega vel með Wigan á yfirstandandi tímabili í ensku úrvalsdeildinni.

Bæði Chelsea og Real Madrid eru sögð hafa áhuga á kappanum en það hefur verið gefið til kynna að Javier Saviola kynni að vera boðinn sem skiptimynt í kaupum Real Madrid á honum.

Steve Bruce, knattspyrnustjóri Wigan, hefur hins vegar fullvissað stuðningsmenn félagsins um að fleiri leikmenn verði ekki seldir frá félaginu í janúarmánuði.

„Það er draumur hvers knattspyrnumanns að spila í Meistaradeildinni sem er besta deild Evrópu," sagði hann í viðtali við spænska miðla. „Ég spyr sjálfan mig af hverju ég sé ekki að spila í þessari deild þegar ég sit heima og horfi á leikina í sjónvarpinu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×