Enski boltinn

Allt um leiki dagsins: Þriðja jafntefli Arsenal í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nicklas Bendtner og Scott Parker í baráttunni.
Nicklas Bendtner og Scott Parker í baráttunni. Nordic Photos / Getty Images

Arsenal gerði sitt fjórða jafntefli í röð í dag er liðið gerði markalaust jafntefli við West Ham í ensku úrvalsdeildinni í dag. Sex leikir hófust klukkan þrjú í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta var einnig fimmta jafntefli Arsenal í síðustu átta deildarleikjum liðsins en liðið er þó taplaust á þessum tíma.

Þetta hefðu verið góðar fréttir fyrir Aston Villa sem hefði náð sjö stiga forystu á Arsenal í baráttu liðanna um fjórða sæti deildarinnar en Villa gerði einnig markalaust jafntefli á heimavelli, gegn Wigan, þrátt fyrir að hafa sótt stíft allan leikinn.

Arsenal var líka með mikla yfirburði gegn West Ham en náði sér þó að skapa sér heldur fá færi.

Middlesbrough og Blackburn gerðu einnig markalaust jafntefli og West Brom náði í 2-2 jafntefli á útivelli gegn Hull.

Bolton vann nauman 3-2 sigur á Tottenham en Bolton komst fyrst 2-0 forystu í leiknum. Tottenham jafnaði hins vegar seint í leiknum en Kevin Davies tryggði sínum mönnum sigurinn á lokamínútunum.

Þá vann Fulham sigur á Portsmouth en fjögur jafntefli litu dagsins ljós af leikjunum sex.

Emmanuel Eboue þurfti að fara meiddur af velli í fyrri hálfleik.Nordic Photos / Getty Images

Arsenal - West Ham 0-0



Smelltu hér til að sjá samantekt úr leiknum.



Þrjár breytingar voru gerðar á liði Arsenal sem gerði jafntefli við Everton í vikunni. Kolo Toure, Emmanuel Eboue og Nicklas Bendtner voru allir í byrjunarliðinu en Alexandre Song, Johan Djourou og Robin van Persie máttu sætta sig við að vera á bekknum.

Gianfranco Zola stillti upp sama liði og vann 2-0 sigur á Hull í vikunni.

Arsenal byrjaði betur og átti Abou Diaby skalla að marki West Ham sem James Collins varnarmaður stýrði í slána á eigin marki. Meira gerðist ekki í fyrri hálfleik. Arsenal var mun meira með boltann en náði ekki að skapa sér nein færi að ráði. West Ham sótti nánast ekkert.

Arsenal komst aftur nálægt því að skora í upphafi síðari hálfleiks eftir heldur klaufaleg mistök Robert Green í markinu en Collins kom aftur til bjargar áður en Toure náði að færa sér mistök markvarðarins í nyt.

Emmanuel Adebayor fékk svo langbesta færi Arsenal í leiknum um miðbik síðari hálfleiksins. Bacary Sagna átti ágæta sendingu inn að markinu og reyndi Adebayor að stýra knettinum í markið en skotið geigaði fyrir nánast opnu marki.

Fleiri færi litu ekki dagsins ljós og niðurstaðan óneitanlega mikil vonbrigði fyrir heimamenn.

Arsenal því enn í fimmta sætinu og fimm stigum á eftir Aston Villa sem er með 48 stig rétt eins og Chelsea og Liverpool en þessi lið mætast á morgun.

West Ham er í áttunda sætinu með 33 stig, jafn mörg og Wigan.

Emile Heskey lék gegn sínum gömlu félögum í dag.Nordic Photos / Getty Images

Aston Villa - Wigan 0-0



Engin breyting var gerð á byrjunarliði Aston Villa sem vann Wigan í vikunni sem þýddi að Emile Heskey var í liðinu og lék gegn sínum gömlu félögum. John Carew var á bekknum en hann hefur verið frá í þrjá mánuði vegna meiðsla.

Chris Kirkland var kominn í markið hjá Wigan á ný eftir að hann missti af leiknum gegn Liverpool vegna meiðsla. Titus Bramble var sömuleiðis í byrjunarliðinu en hann tók út leikbann í síðasta leik. Amr Zaki var hins vegar fjarverandi vegna meiðsla en Jason Koumas kom inn í byrjunarliðið.

Leikurinn byrjaði rólega en Gabriel Agbonlahor komst nálægt því að skora er hann skallaði að marki Wigan en varnarmenn liðsins björguðu á línu.

Stutt síðar komst Daniel De Ridder einn gegn Brad Friedel, markverði Aston Villa, en sá síðarnefndi varði hins vegar vel frá De Ridder.

Friedel var svo aftur vel á verði undir lok hálfleiksins er hann varði skalla Maynor Figueroa.

Zat Knight var svo nálægt því í upphafi síðari hálfleiks að koma Villa yfir en hann átti skalla í stöngina. Enginn náði svo að fylgja eftir frákastinu.

John Carew kom svo inn á í sínum fyrsta leik í langan tíma en ekki tókst honum heldur að skora frekar en öðrum leikmönnum. Hann átti skot að marki eftir óbeina aukaspyrnu en Paul Scharner náði að bjarga á línu.

Aston Villa hefði getað komist upp í annað sæti deildarinnar með sigri en er nú með 48 stig í því fjórða.
Darren Bent kom inn á í hálfleik og skoraði tvö. Hér kemur Grétar Rafn Steinsson engum vörnum við.Nordic Photos / Getty Images

Bolton - Tottenham 3-2

1-0 Sebastien Puygrenier (31.)

2-0 Kevin Davies (64.)

2-1 Darren Bent (72.)

2-2 Darren Bent (74.)

3-2 Kevin Davies (87.)

Smelltu hér til að sjá samantekt úr leiknum.

Mark Davies og Ricardo Gardner voru í byrjunarliði Bolton í stað Chris Basham og Kevin Nolan en sá síðarnefndi var seldur til Newcastle í vikunni. Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn fyrir Bolton.

Wilson Palacios var í byrjunarliði Tottenham í sínum fyrsta leik en Jermain Defoe er fjarverandi vegna meiðsla.

Grétar Rafn var næstum búinn að leggja upp mark um miðbik fyrri hálfleiksins er hann átti góða fyrirgjöf beint á Mark Davies sem fór illa að ráði sínu og skallaði framhjá.

Sebastien Puygrenier var hins vegar vel með á nótunum stuttu síðar og skoraði fínt skallamark eftir aukaspyrnu Davies.

Kevin Davies tvöfaldaði svo forystu Bolton um miðbik síðari hálfleiksins með góðu skoti eftir sendingu Gary Cahill. Þetta var annað mark Davies í jafn mörgum leikjum með Bolton.

Þetta þótti gefa til kynna að öruggur sigur heimamanna í höfn en leikmenn Tottenham voru á öðru máli - og þá sérstaklega varamaðurinn Darren Bent sem hafði komið inn á í hálfleik.

Honum tókst að jafna metin með tveimur mörkum á jafn mörgum mínútum. Það fyrra eftir góðan undirbúning Pascal Chimbonda sem var að leika með liðinu í fyrsta sinn síðan hann kom frá Sunderland.

Síðara markið skoraði Bent eftir að hann fylgdi eftir skoti Palacios sem Jussi Jaaskelainen varði.

En heimamenn héldu áfram að berjast og uppskáru sigurmarkið skömmu fyrir leikslok. Matt Taylor átti fyrirgjöf fyrir markið og Kevin Davies tryggði sínum mönnum sigur með góðu skallamarki.

Bolton er nú í tólfta sæti með 27 stig en Tottenham í því fjórtánda með 24.

Norðmaðurinn Erik Nevland skoraði sín fyrstu mörk á tímabilinu með Fulham í dag.Nordic Photos / Getty Images

Fulham - Portsmouth 3-1

1-0 Andy Johnson (14.)

2-0 Erik Nevland (71.)

3-0 Erik Nevland (80.)

3-1 David Nugent (84.)

Smelltu hér til að sjá samantekt úr leiknum.

Hermann Hreiðarsson komst í hóp fárra erlendra leikmanna sem hafa náð 300 leikjum í ensku úrvalsdeildinni en hann var í byrjunarliði Portsmouth í dag. Sol Campbell var hins vegar fjarverandi vegna meiðsla og tók Younes Kaboul stöðu hans í vörninni. Nadir Belhadj er í banni og kom Armand Traore inn í hans stað.

Það var hins vegar engin breyting á liði Fulham sem tapaði fyrir Sunderland nú í vikunni.

Andy Johnson nýtti sér óskipulag í varnarleik Portsmouth snemma leiks og skoraði, einn gegn markverðinum, eftir stungusendingu frá Clint Dempsey.

Portsmouth komst svo nálægt því að jafna áður en flautað var til hálfleiks er Kaboul skallaði í slána á marki Fulham.

Þó svo að Portsmouth hafi átt fleiri skot að marki en heimamenn voru það leikmenn Fulham sem voru næstir til að skora í leiknum. Varamaðurinn Erik Nevland var að verki en hann fékk langa sendingu frá Simon Davies og skoraði örugglega framhjá David James í markinu.

Nevland náði svo að innsigla sigur Fulham með marki eftir fyrirgjöf Simon Davies. Þessi tvö mörk voru þau fyrstu hjá honum í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

David Nugent náði svo að klóra í bakkann fyrir gestina með marki undir lokin en hann skallaði inn fyrirgjöf Jermaine Pennant úr aukaspyrnu.

Fulham er í níunda sæti deildarinnar með 29 stig en Portsmouth í fimmtánda með 24, jafn mörg og Tottenham og Stoke.

Craig Fagan kom Hull yfir í leiknum en það dugði ekki til.Nordic Photos / Getty Images

Hull - West Brom 2-2

1-0 Bernard Mendy (44.)

1-1 Jay Simpson (53.)

2-1 Craig Fagan (69.)

2-2 Chris Brunt, víti (73.)

Smelltu hér til að sjá samantekt úr leiknum.

Hull hafði tapað sjö leikjum í röð fyrir leik dagsins en liðið þurfti að vera án Daniel Cousin sem er enn að jafna sig eftir hnémeiðsli og þá er Jimmy Bullard ekki enn orðinn leikfær en hann kom til Hull á dögunum frá Fulham.

Ryan Donk var í byrjunarliði West Brom í dag en hann hafði verið tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla.

Eins og í svo mörgum öðrum leikjum dagsins var afskaplega lítið um að vera í fyrri hálfleik en þó var skorað áður en hálfleikurinn kláraðist. Bernard Mendy fékk stungusendingu inn fyrir vörn West Brom og náði til knattarins á undan Scott Carson markverði, lék á hann og skoraði í autt markið.

Hull fékk nokkur færi til að auka forskotið í upphafi síðari hálfleiks en það voru gestirnir sem voru fyrri til að skora og þar með jafna metin. Jay Simpson var þar að verki eftir góðan undirbúning James Morrison.

Hull komst hins vegar yfir fljótlega aftur en Craig Fagan náði að skora fyrir heimamenn með fínu skallamarki eftir sendingu Mendy.

Þetta þótti sanngjarnt en aðeins örfáum mínútum síðar hafði West Brom náð að jafna með marki úr vítaspyrnu. Kamil Zayatte þótti brjóta á Rob Koren í teignum og tók Chris Brunt vítið fyrir West Brom og skoraði af öryggi. Það reyndist síðasta mark leiksins.

Hull er nú dottið niður í ellefta sæti deildarinnar og er með 28 stig en West Brom enn á botninum, nú með 22 - rétt eins og Middlesbrough.

Tuncay Sanli og Vince Grella í baráttunni.Nordic Photos / Getty Images

Middlesbrough - Blackburn 0-0

Ein breyting var gerð á liði Blackburn sem gerði jafntefli við Bolton í vikunni en Roque Santa Cruz var í byrjunarliðinu í stað Jason Roberts. Þykir þetta gefa til kynna að Cruz verði áfram í herbúðum Blackburn en félagið hefur hafnað nokkrum tilboðum frá Manchester City í hann.

Ástralinn Brad Jones var í markinu hjá Boro í stað Russ Turnbull og þeir Robert Huth og Josh Walker voru sömuleiðis í byrjunarliðinu en Boro hefur gengið skelfilega að undanförnu.

Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill en helst var að Adam Johnson átti fínt skot af 25 metra færi sem fór hárfínt framhjá marki Blackburn.

Ekki mikið meira markvert gerðist lengst af í síðari hálfleik en heimamenn voru þó aftur nær því að skora. Þeir Benni McCarthy og Santa Cruz áttu báðir skot að marki í sömu sókninni en varnarmönnum Blackburn tókst að verjast þeim með naumindum.

Jason Roberts átti svo möguleika að tryggja gestunum sigurinn á lokamínútu leiksins en Brad Jones varði frá honum. Niðurstaðan því markalaust jafntefli.

Middlesbrough enn í næst neðsta sæti deildarinnar og nú með 22 stig en Blackburn í átjánda sætinu með einu stigi meira og jafn mörg og Newcastle sem mætir Sunderland á morgun.


Tengdar fréttir

Stoke vann Man City manni færri

Stoke gerði sér lítið fyrir og vann 1-0 sigur á Manchester City þó svo að Rory Delap hafi fengið að líta rauða spjaldið snemma leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×