Íslenski boltinn

Lúkas: Klárlega okkar besti leikur í sumar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Luka Kostic, þjálfari Grindavíkur.
Luka Kostic, þjálfari Grindavíkur. Mynd/Vilhelm

Lúkas Kostic var ánægður með frammistöðu sinna manna, sem hann sagði þá bestu í sumar, þó það hefði ekki dugað til að fá þrjú stig.

"Þetta er klárlega okkar besti leikur í ár. Ég veit ekki hvort úrslitin eru sanngjörn, mér fannst við eiga aðeins meira í þessu sem hefði getað skilað okkur þremur stigum. En ég er himinlifandi með frammistöðu liðsins. Við litum út sem lið, hreyfðum okkur vel til baka, börðumst sem lið og spiluðum á köflum virkilega flotta knattspyrnu," sagði Lúkas í samtali við Vísi í leikslok.

"Við sköpuðum okkur færi. Við verðum auðvitað að hafa í huga að Keflvíkingarnir voru sterkir í dag og leikurinn var nokkuð skemmtilegur, örugglega gaman fyrir áhorfendur að sjá leikinn í dag. Það voru færi á báða bóga, ekki endilega dauðafæri, en það komu færi og bæði liðin stóðu sig virkilega vel," bætti Lúkas við.

Grindvíkingar hefðu allt eins getað tekið öll stigin í kvöld og Lúkasi fannst þeir sterkari aðilinn.

"Mér fannst við örlítið sterkari. Það vantar kannski aðeins meiri sigurvilja hjá okkur en þegar menn eru að berjast í neðri hlutanum þarf oft að taka eitt lítið skref í einu, við hefðum þurft stærra skref til að klára dæmið. Fyrir leikinn hefði ég óskað þess að fá þrjú stig og það næst besta hefði verið 0-0 jafntefli. En við fengum mark á okkur og komum til baka sem ég er mjög ánægður með," sagði Lúkas.

Keflvíkingar skoruðu mark sitt úr vítaspyrnu en Lúkas vildi ekkert um hana segja en hrósaði dómaranum hins vegar í hástert.

"Ég sá ekki hvað gerðist þegar vítaspyrnan var dæmd. Ég er búinn að læra það fyrir löngu að segja ekkert í svona tilvikum. En dómararnir dæmdu frábærlega í kvöld og það má hrósa þeim fyrir frábæra frammistöðu," sagði þjálfari Grindavíkur Lúkas Kostic í leikslok.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×