Innlent

Borgin hirðir ekki garðaúrgang

Reykjavíkurborg mun ekki losa borgarbúa við garðaúrgang í ár, eins og verið hefur mörg undanfarin ár. Borgarbúar verða því sjálfir að losa sig við garðaúrgang og greinar.

Jón Halldór Jónasson, upplýsingastjóri framkvæmda- og eignasviðs, segir að um sparnaðaraðgerðir sé að ræða. Kostað hefði um 45 milljónir króna að halda úti óbreyttu verklagi hvað úrganginn varðar. Jón segir þetta geta valdið borgarbúum óþægindum, enda hafi þessi þjónusta verið til staðar í tæp tuttugu ár. Þetta sé hins vegar ekki skilgreind grunnþjónusta hjá borginni.

„Við hvetjum borgarbúa til að taka til og köllum eftir auknu frumkvæði og ábyrgð þeirra." Jón segir vonast til að fólk taki höndum saman, haldi jafnvel hreinsunardag í götunni eða götuhátíð og hjálpist að við að koma úrganginum í Sorpu.

Jón segir að vissulega hefði mátt láta borgarbúa vita fyrr af breytingunum, en margir hafa þegar komið úrgangi sínum fyrir úti á götu. Venjan sé að borgin hreinsi til í lok apríl, en vegna veðurs hafi fjölmargir þegar hafið vorverkin.

Margir hafa komið upp eigin moltugerð í görðum sínum en aðrir verða að koma úrgangi úr görðum sínum til endurvinnslustöðva.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×