Innlent

Skáld tapar þakdeilu

Skáldakonan Auður Haralds tapar deilu um þakviðgerðir.
Skáldakonan Auður Haralds tapar deilu um þakviðgerðir.

Rithöfundurinn og ljóðskáldið, Auður Haralds, tapaði einkamáli gegn Páli Björgvinssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hún höfðaði mál á hendur honum vegna kostnaðar við þakviðgerðir á húsi sem þau bjuggu í við Bergþórugötu í miðborg Reykjavíkur.

Ákveðið var að gera við þakið árið 2004 en kostnaður reyndist nema um 850 þúsund krónum. Páll neitaði að borga sinn hluta af viðgerðunum. Hann hélt því fram að honum bæri engin skylda til þess að standa straum af kostnaðinum þar sem ákvörðunin um viðgerðirnar var ekki tekin á löglegum húsfundi sem hann var boðaður á. Þá bar hann fyrir sig að hann hefði ekkert haft um viðgerðirnar að segja, auk þess sem ástand þaksins hefði ekki verið kannað fyrir viðgerðirnar.

Héraðsdómur Reykjavíkur tók undir sjónarmið Páls og dæmdi honum í hag. Auði var gert að greiða lögfræðikostnað Páls upp á fjögurhundruð þúsund krónur.

Þess má geta að Páll er fluttur af Bergþórugötunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×