Erlent

Útfararþjónusta grunuð um að stytta lík

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
James Hines heitinn ásamt eiginkonu sinni. Útfararþjónustan Cave Funeral Services er grunuð um að hafa stytt lík hans til að koma því í kistuna.
James Hines heitinn ásamt eiginkonu sinni. Útfararþjónustan Cave Funeral Services er grunuð um að hafa stytt lík hans til að koma því í kistuna. MYND/CNN/Fjölskylda Hines

Lögregla í Suður-Karólínu rannsakar nú hvort útfararþjónusta hafi fjarlægt fótleggina af líki hávaxins manns til að koma því fyrir í kistunni. Rannsóknin á þessum óhugnanlega niðurskurði er byggð á framburði fyrrverandi starfsmanns útfararþjónustunnar en hinn látni var tæpir tveir metrar á hæð og lést úr krabbameini árið 2004.

Kistan var grafin upp á þriðjudaginn og líkskoðari lét það uppi í samtali við CNN að „óæskileg sönnunargögn" væru komin fram án þess þó að vilja segja nokkuð um hvort breytingar af mannavöldum hafi orðið á lengd líksins.

Ættingi hins látna segir útfararstjórann hafa fullyrt að kistan væri nægilega stór til að rúma jarðneskar leifar hans. Enn fremur sagði ættinginn að fjölskyldan hefði átt viðskipti við þessa sömu útfararþjónustu árum saman og hefði hún bókstaflega jarðað allan frændgarðinn. Nú væri hins vegar ekki víst að þau viðskipti héldu áfram kæmi í ljós að grunurinn um styttingu líksins væri á rökum reistur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×