Innlent

Slökkvilið kvíðir umferðarþunga að HR

háskólinn í reykjavík Byggingin er komin langt á leið og verður tilbúin í desember, að sögn Þorkels Sigurlaugssonar. Starfsemin flytur um áramótin.fréttablaðið/valli
háskólinn í reykjavík Byggingin er komin langt á leið og verður tilbúin í desember, að sögn Þorkels Sigurlaugssonar. Starfsemin flytur um áramótin.fréttablaðið/valli

Umferð um Bústaðaveg mun aukast töluvert þegar Háskólinn í Reykjavík tekur til starfa í Vatnsmýrinni. Um 2.500 nemendur og kennarar flytjast yfir í nýja húsnæðið um áramótin. Reynt verður að bjóða út Hlíðar­fótinn, veginn frá Hringbraut að Hótel Loftleiðum, sem fyrst til að vinna bug á vandamálinu.

„Við höfum áhyggjur af þessu og höfum verið í samstarfi við Reykjavíkurborg um hvernig best er að leysa þetta,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Útkallsþjónusta Slökkviliðsins er í Skógarhlíð, við Bústaðaveg, og við flutning HR gæti slökkviþjónusta tafist.

„Við höfum líka spáð í það hvort ekki væri sniðugra að hafa útkallsþjónustuna annars staðar því við erum svolítið innikróuð og höfum verið lengi. Það væri æskilegra að vera nær stofnbraut og nú er líklega meiri þörf á að leggjast í greiningarvinnu um hver besta staðsetningin er,“ segir Jón Viðar.

Hins vegar tekur að sögn hans langan tíma að vinna að breyttri staðsetningu og því er verið að reyna að finna bestu lausnina í núverandi ástandi.

Unnið er að því að bæta samgöngur við Vatnsmýrina vegna komu HR. Verið er að breikka Flugvallarveg, sem er varanleg framkvæmd. Einnig verður ráðist í bráðabirgðaveg frá Hringbraut að Hótel Loftleiðum sem jafnan kallast Hlíðarfótur.

„Reynt verður að bjóða Hlíðarfótinn út sem fyrst en við vitum ekki nákvæmlega hvenær það verður,“ segir Kristín Einarsdóttir, aðstoðarsviðsstjóri framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar.

Hlíðarfóturinn verður tilbúinn um það leyti sem HR kemur inn í húsið, að sögn Kristínar.

Flytja á tækni- og verkfræði-, tölvunarfræði- og viðskiptadeild HR úr öðru húsnæði yfir í Vatnsmýrina um áramótin. Þetta eru um 70 prósent af starfsemi skólans, um 2.300 nemendur og 200 kennarar og annað starfsfólk. Restin af starfseminni flytur í húsið haustið 2010.

„Við erum ekki hrædd við umferðarteppur þegar Hlíðarfóturinn kemur svo þetta ætti að vera í lagi,“ segir Þorkell Sigurlaugsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá HR.

HR mun aðlaga sig að aðstæðum til að dreifa álaginu, að sögn Þorkels. Til dæmis gæti hugsast að deildir byrji á mismunandi tímum á morgnana til að dreifa umferðarálaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×