Innlent

Rúmlega 700 fleiri fá hjálp frá borginni

Útgjöld sveitarfélaganna vegna félagslegrar þjónustu hafa hækkað um sextíu til sjötíu prósent að jafnaði eftir hrun. Dæmi eru um að útgjöld hafi tvöfaldast hjá einstökum sveitarfélögum.

Þetta sýnir könnun sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur nýverið gert. Hún tók til tveggja þátta félagsþjónustunnar; fjárhagsaðstoðar og húsaleigubóta. Bornir voru saman fyrstu átta mánuðir áranna 2008 og 2009 hjá stærstu sveitarfélögunum með um áttatíu prósent íbúanna.

Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs, segir að niðurstaða könnunarinnar hafi ekki komið sér á óvart.

„Hvað varðar húsaleigubætur hafa tekjur margra lækkað mikið og fleiri falla því undir reglur um bæturnar. Fólk er líka komið út á leigumarkaðinn vegna missis á eigin húsnæði."

Gunnlaugur segir að reglur vegna fjárhagsaðstoðar séu mjög strangar og tölfræðin beri með sér alvarleg tíðindi í því ljósi. „Fólk leitar ekki eftir þessari aðstoð nema þegar í nauðirnar rekur. Þetta er fólk sem á fá eða engin önnur úrræði."

Hjá Reykjavíkurborg fengu 1.371 fjárhagsaðstoð vegna framfærslu fyrstu átta mánuði ársins 2008 en þeir voru 2.081 í ár. Fjölgun á milli ára var 52 prósent. 462 milljónir voru greiddar árið 2008 en 843 milljónir í ár, sem er aukning um 82 prósent. Húsaleigubætur fengu 5.292 á sama tímabili árið 2008 en voru 6.842 í ár. Útgjöld borgarinnar vegna húsaleigubóta hækkuðu um 44 prósent, úr 650 milljónum í 935 milljónir.

Guðrún Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar, segir að málin sem deildin fái til úrvinnslu hafi breyst.

„Hefðbundnir viðskiptavinir félagsþjónustunnar eru fólk sem hefur misst tekjur af einhverjum ástæðum; vegna veikinda eða atvinnumissis," segir Guðrún.

„Nú koma fleiri sem eru í alvarlegum vanda þótt þeir hafi tekjur og kemur þar til skuldavandi heimilanna eftir hrunið." - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×