Innlent

Grásleppukarlar skila yfir milljarði í þjóðarbúið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Mynd úr safni
Mynd úr safni
Gríðarhátt verð fæst nú fyrir grásleppuhrogn og hefur það hækkað um 85 prósent frá því fyrra. Þessi mikla verðhækkun gerir gott betur en að bæta upp aflasamdrátt í grásleppunni og er áætlað að heildaraflaverðmæti fari yfir einn milljarð króna á tveggja mánaða vertíð í ár.

Grásleppan er veidd á vorin þegar hún sækir í þaragróðurinn á grunnsævi til að hrygna. Henni hefur fram til þessa að mestu verið hent til baka í sjóinn eftir að búið er að rista á henni kviðinn og ná hrognunum. Þetta er að breytast því markaður hefur opnast í Kína fyrir heilfrysta grásleppu.

Þetta er atvinnugrein dreifbýlisins en tæplega þrjúhundruð bátar hafa leyfi til grásleppuveiða, nokkrir þeirra eru gerðir út frá höfninni í Skarðsstöð við Breiðafjörð. Þar kvarta menn undan lélegri veiði í ár. Hjá Landssambandi smábátaeigenda segir Örn Pálsson að minna hafi veiðst um allt land og áætlar tíu prósenta samdrátt í ár, þrátt aukna sókn.

En annað gleður grásleppukarla. Hilmar Kristinsson, grásleppusjómaður á Skarði, segir verðið mjög gott og flest bendi til að það fari stígandi.

Hilmar fer með grásleppuhrognin á næsta sveitabæ en á Geirmundarstöðum byggðu þau Bryndís Karlsdóttir og Þórður Baldursson upp grásleppuverkun til að mæta samdrætti í sauðfjárrækt. Þarna í sveitinni er sem sagt verið að verka grásleppuhrogn svo þau verði að dýrindis kavíar. Verðið sem sjómenn fá fyrir hverja tunnu er komið upp í 120 þúsund krónur, var 65 þúsund krónur í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×