Íslenski boltinn

Eitt af því fáa í lífinu sem ég sé virkilega eftir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Leikmenn Keflavíkur klappa fyrir stuðningsmönnum sínum.
fréttablaðið/daníel
Leikmenn Keflavíkur klappa fyrir stuðningsmönnum sínum. fréttablaðið/daníel

„Ég veit ekki hvað ég var að spá. Þetta gerðist í einhverri bræði. Ég var ekki að reyna að hitta neinn, kastaði bara frá mér flöskunni í bræði," sagði Keflvíkingurinn Haraldur Bjarni Magnússon sem varð uppvís að því að kasta hálfs lítra kókflösku inn á KR-völlinn á sunnudagskvöld. Hún lenti rétt hjá KR-ingnum Prince Rajcomar.

Tvö ljót atvik áttu sér stað í stúkunni því annar stuðningsmaður Keflavíkur kastaði flösku inn í áhorfendahóp KR og hafnaði flaskan í hnakkanum á saklausri konu.

Haraldur Bjarni sá að sér um leið og hann kom heim um kvöldið og sendi þá frá sér afsökunarbeiðni á heimasíðu stuðningsmanna Keflavíkur.

„Ég sé alveg rosalega eftir þessu. Ég sé nú ekki eftir mörgu í lífinu en þetta er eitt af því sem ég sé eftir," sagði Haraldur en hvernig finnst honum að ætti að refsa sér fyrir atvikið?

„Ég tek þeirri refsingu sem ég fæ þegjandi. Ég er samt fullur iðrunar. Þetta er í fyrsta skiptið sem ég verð uppvís að slíkri hegðun á vellinum og er yfirleitt prúður á vellinum. Ég get lofað því að slíkt kemur ekki fyrir aftur," sagði Haraldur fullur iðrunar.

Stuðningsmenn Stjörnunnar urðu uppvísir að slæmri hegðun á heimavelli Keflavíkur um daginn og voru Keflvíkingar fljótir að fordæma hegðun Stjörnumannanna. Þeir minntust ekki einu orði á hegðun sinna manna á heimasíðu sinni í gær.

„Við getum ekkert við þessu gert nema beðið okkar fólk um að sína stillingu. Það er ekki hægt að halda í höndina á öllum stuðningsmönnunum. Mér finnst samt ekkert sameiginlegt með þessu atviki og atviki Stjörnumanna. Þá var hópur búinn að æfa níðsöng um leikmann en þarna missir aðili stjórn á sér," sagði Þorsteinn Magnússon, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur.

„Við lítum málið alvarlegum augum en höfum ekki rætt hvort við gerum eitthvað í málinu. Ég mun samt ræða við drenginn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×