Erlent

Olíuleitartæki reyndust 35 tonn af vopnum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Flugvélin á flugvellinum í Bangkok.
Flugvélin á flugvellinum í Bangkok.

Fimm manna áhöfn norðurkóreskrar flutningavélar er í haldi lögreglunnar í Bangkok í Taílandi eftir að í ljós kom að vélin flutti 35 tonn af vopnabúnaði.

Vélin var á leið frá Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, en skráð í Georgíu. Hún millilenti í Bangkok á föstudaginn og fóru taílenskir löggæslumenn þá um borð og leituðu í vélinni en þeim hafði borist ábending frá bandarískum leyniþjónustumönnum um að farmur vélarinnar væri ekki olíuleitarbúnaður eins og fram kom á farmskrá. Þetta reyndist á rökum reist, í stað tækja til olíuleitar fundu eftirlitsmennirnir 35 tonn af sprengjuvörpum, flugskeytum, handsprengjum og öðrum vopnabúnaði.

Áhöfnin yppti öxlum og sagðist ekki hafa haft neina hugmynd um hvað væri um borð í vélinni en næsti áfangastaður þeirra hefði átt að vera Sri Lanka. Bandarísku leyniþjónustuna grunar þó annað og telur að vopnasendingin hafi verið á leið til Írans þar sem Norður-Kóreumenn ætluðu sér að selja vopnin til að fjármagna kjarnorkuáætlun sína en önnur vopnasending frá Norður-Kóreu, sem hald var lagt á í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í júlí, var einmitt á leið þangað. Þó er heldur ekki talið útilokað að þessi sending hafi verið á leið á markað í Afganistan eða Pakistan.

Áætlað er að Norður-Kóreumenn hafi einn milljarð dollara á ári upp úr ólöglegri vopnasölu en viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2006 nær yfir sölu vopnabúnaðar út úr landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×