Innlent

Erlendir fjárfestar halda að sér höndum

Vilhjálmur Egilsson
Vilhjálmur Egilsson

Fjöldi erlendra fjárfesta hefur áhuga á Íslandi, en skila sér ekki. Þeir halda að sér höndum og kvarta undan því að leikreglum sé breytt í miðju samningaferli. Ekki sé treystandi á óstöðugt starfsumhverfi hér á landi.

Samtök atvinnulífsins hafa spurnir af ýmsum erlendum fjárfestum sem sýnt hafa íslenskum fyrirtækjum, bönkunum og uppbyggingu hér á landi áhuga. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdarstjóri segir að þeir sem séu í stórum fjárfestingum kvarti gjarnan undan því að okkar starfsemi sé svo óstöðug.

„Stundum er farið í eina áttina og svo eru þeir bremsaðir af og jafnvel í sumum tilfellum eru þeir búnir að eyða stórfé og jafnvel stoppaðir af í endanum á slíku ferli."

Nefnir Vilhjálmur sem dæmi áætlanir Rio Tinto Alcan um frekari uppbyggingu í Straumsvík og að þremur milljörðum króna hefði verið eytt í verkefnið. Það hafi hins vegar dottið upp fyrir á ögurstund þegar íbúar Hafnarfjarðar greiddu atkvæði gegn stækkun álversins.

Hann segir þetta fæla menn frá og þeir sem hann hafi talað við vilji sjá meiri stöðugleika í afgreiðslu mála, staðið sé við fresti og menn fái skýr svör.

Vilhjálmur segir að Íslendingar þurfi á þessum erlendu fjárfestum að halda til að byggja upp atvinnulíf hér á landi.

„Ég held að við þurfum almennt séð að vera opnari, faglegri vinnubrögð, standa við það sem við segjum og breyta ekki leikreglum í miðju ferli, og þannig getum við náð árangri á þessu sviði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×