Innlent

Leyndar afleiðingar skattahækkana valda þingmönnum áhyggjum

Höskuldur Kári Schram. skrifar

Áhrif fyrirhugaðra skattahækkana á millitekjufólk er það atriði sem helst virðist valda áhyggjum meðal þingmanna. Áfram verður unnið að mótun skattahugmynda um helgina en eitt af því sem hefur verið rætt er að hækka neðsta skattþrepið sem nú miðast við 250 þúsund króna mánaðarlaun.

Ríkisstjórnin hefur boðað rúmlega 50 milljarða króna skattahækkanir á næsta ári til að brúa fjárlagagatið.

Rætt hefur hefur verið um þriggja þrepa skattkerfi þar sem staðgreiðsla skatta hjá þeim sem eru með laun yfir 500 þúsund krónur á mánuði gæti orðið allt að 47 prósent. Skattur á millitekjufólk - með laun á bilinu 250 til 500 þúsund krónur verður 41 prósent - samkvæmt þeim tillögum sem nú eru ræddar og þá leggst 36 prósent skattur á laun undir 250 þúsund krónum.

Þingmenn og starfsmenn ráðuneyta munu halda áfram að móta skattatillögur nú um helgina. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa menn nokkrar áhyggjur af áhrifum skattahækkana á millitekjufólk.

Meðal þess sem nú er rætt er að hækka neðsta skattþrepið til að hlífa launalægsta millitekjuhópnum.

Vinnan hefur einnig beinst að því að finna leiðir til að auka skatttekjur ríkissjóðs án þess að það hafi of mikil áhrif á vísitölu neysluverðs. Hækki vísitalan leiðir það til aukinnar verðbólgu sem síðan bitnar á skuldsettum heimilum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×