Enski boltinn

Tilboð óskast í Carlos Tevez

NordicPhotos/GettyImages

Kia Joorabchian segir að "eigendur" knattspyrnumannsins Carlos Tevez hjá Manchester United séu nú opnir fyrir kauptilboðum í leikmanninn.

Tveggja ára lánssamningur Tevez hjá Manchester United rennur út í lok leiktíðar og félagið hefur enn ekki náð að ganga frá kaupum á honum.

United hafði möguleika á að kaupa hann allt fram í janúar á þessu ári en Tevez hefur reyndar lýst því yfir að hann vilji vera áfram í Manchester.

Joorabchian er einn þeirra sem eiga réttinn á Argentínumanninum en hann hefur verið orðaður við bæði Inter Milan og Real Madrid og sagt er að hann muni kosta um 30 milljónir punda.

"Carlos er til sölu úr því að Manchester United hefur ekki gert í hann tilboð," sagði Joorabchian í samtali við Daily Star. "Nú erum við að líta á aðra möguleika og ræða við félög sem sýna honum áhuga. Það virðist ljóst að hann verði ekki hjá United áfram."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×