Lífið

Jón Gnarr fékk draumahundinn

Jón Gnarr er ánægður með hundinn sinn Tobba sem hann fékk fyrir einum mánuði, en hann er hreinræktaður border terrier.
Jón Gnarr er ánægður með hundinn sinn Tobba sem hann fékk fyrir einum mánuði, en hann er hreinræktaður border terrier.

„Ég hef bara verið með svona draslhunda sem enginn annar vildi, bæði blendinga og hreinræktaða, en það voru vandræðahundar sem stöldruðu stutt við hjá mér. Það var draumurinn að fá góðan hund svo ég lét bara verða af því,“ segir Jón Gnarr, sem fékk hundinn Tobba fyrir mánuði síðan.

„Þetta er border terrier, eins hundur og er í myndinni There‘s Something about Mary og var frægur þar í gipsi. Þetta er frábær hundategund, bæði skemmtilegt að þjálfa þá og þeir eru góðir á heimili. Við vorum búin að panta hvolp úr fyrsta goti ræktandans af þessari tegund, en það verða oft erfiðleikar í fyrsta goti svo það köfnuðu allir hvolparnir í fæðingu nema Tobbi,“ útskýrir Jón. Hann segir Tobba gott eintak af hreinræktuðum hundi og aðspurður segist hann ætla með hann á þjálfunarnámskeið. „Ég er örlítið byrjaður að þjálfa hann, en ég ætla að fara með hann á öll námskeið sem eru í boði.“

Fram undan eru annasamir tímar hjá Jóni, því í byrjun maí hefjast tökur á Fangavaktinni sem hann er nú í óða önn að æfa fyrir. Auk þess undirbýr hann kvikmyndina Bjarnfreðarson sem verður tekin upp seinna í sumar. „Þetta er svona vertíð, eins og að vera í verbúð þar sem maður vinnur tólf til fimmtán tíma á dag. En ég ætla að reyna að taka Tobba eins mikið með mér og mögulegt er, hann er mjög þægilegur og skemmtilegur,“ útskýrir Jón sem hefur verið að safna skeggi fyrir tökurnar á Fangavaktinni. „Ég er búinn að vera að safna skeggi síðan í febrúar og finnst það leiðinlegt. Mér finnst ég líka ljótur með skegg, eins og ég er ofboðslega fallegur,“ segir hann og brosir. - ag






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.