Innlent

Segir ráðherra pínulítinn karl

Friðrik J. Arngrímsson segir lag Þursaflokksins um pínulítinn karl best lýsa Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra.fréttablaðið/anton
Friðrik J. Arngrímsson segir lag Þursaflokksins um pínulítinn karl best lýsa Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra.fréttablaðið/anton

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), segir félagsmálaráðherra hafa orðið sér til minnkunar.

Því sé best lýst með þekktu lagi Hins íslenzka Þursaflokks, Pínulítill karl.

Tilefni ummælanna er orð félagsmálaráðherra um „grátkór“ sjávarútvegs og stóriðju vegna orkuskatta og innköllunar fiskveiðiheimilda. Þá sagði Árni mikilvægt að verða ekki „ginningarfífl stóriðju og útgerðarauðvalds“.

„Orð ráðherrans eru honum ekki einungis til minnkunar vegna þess hroka sem hann sýndi þeim sem vinna við þessar atvinnugreinar. Þau eru einnig vanvirða við það góða fólk sem mátti sitja undir ræðu hans. Hæstvirtur ráðherrann virðist telja að þeir sem sækja ársfund ASÍ falli fyrir innantómum frösum og upphrópunum lýðskrumarans,“ segir Friðrik, í pistli á heimasíðu LÍÚ.

Þá gagnrýndi stjórnarandstaðan ráðherra einnig. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, velti því fyrir sér hvort ráðherra styddi stækkun álversins í Straumsvík, en Árni Páll er fyrsti þingmaður Suðvesturkjördæmis, þar sem álverið er. Hún sagði hann tala niður til atvinnulífsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×