Lífið

Grænlenskt þema á fyrstu einkasýningunni í London

Tveir grænlenskir drengir sem María myndaði þegar hún dvaldi þar fyrir nokkru síðan.
Tveir grænlenskir drengir sem María myndaði þegar hún dvaldi þar fyrir nokkru síðan.

Fyrsta einkasýning ljósmyndarans Maríu Kjartansdóttur, Shared Future, stendur yfir í London um þessar mundir. Myndir frá Grænlandi eru áberandi á sýningunni.

Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Bretlandi opnaði sýninguna, sem samanstendur af þrjátíu verkum frá Grænlandi, Íslandi og Englandi. Tónlist eftir Birgi Hilmarsson, kærasta Maríu, og hljómsveit hans Blindfold hljómar undir til að gefa myndefninu andlegan undirtón.

María segist hafa fengið ótrúlega góð viðbrögð við sýningunni, sem er hluti af East-listahátíðinni í London. „Ég hef verið að taka þátt í mikið af samsýningum áður og maður finnur ekki eins mikið fyrir viðbrögðum fólks þá en hérna fær maður þetta beint í æð,“ segir María, sem er búsett í London. „Það skemmtilega við þetta er að fólk hér á Englandi hefur enga hugmynd um að myndirnar séu frá Grænlandi. Það heldur að þetta sé frá Íslandi og spyr hvort það sé líf á norðurpólnum. Mér finnst stórmerkilegt hvað þeir vita lítið um þessa þjóð,“ segir hún.

Ástandið á Grænlandi er mjög slæmt að hennar mati og virðist ekkert fara batnandi. „Ég er búin að fara þrisvar sinnum til Grænlands en ég fer alltaf ein til að tengast fólkinu betur. Ég hef verið þarna alveg nóg til að vita að ég get ekki verið lengi þarna í einu.“

María segir að sýningin fjalli bæði um óttann við dauðann en líka óttann við það að missa allar eigur sínar. „Þegar svona hlutir gerast eins og kreppan er ákveðið tækifæri fyrir fólk að staldra við og hugsa: „Hvernig ætla ég að lifa núna út frá þessum skilyrðum? Hvernig er best að lifa á sem jákvæðastan hátt?“,“ segir hún.

Sýningunni lýkur 22. mars og eftir það ætlar María að halda aðra í London með myndum sem hún tók í fjöllum Spánar þar sem hún bjó í helli með hippum og sígaunum. Þar ríkti sá hugsunarháttur að fólk þarf ekki eiga hluti sem það hefur enga sérstaka þörf fyrir, sem María telur að margir gætu lært af á þessum síðustu og verstu tímum. Núna stendur einnig yfir samsýning hennar og Birgis á Ítalíu þar sem blandað er saman landslagsmyndum hennar og tónlistinni hans. Síðar meir vonast María svo til að halda sýningu hér á landi þegar rétta tækifærið gefst. Frekari upplýsingar um ört vaxandi feril hennar má finna á síðunni www.mariak.ifp3.com.

freyr@frettabladid.is

maría kjartansdóttir Fyrsta einkasýning Maríu stendur yfir í London um þessar mundir. Henni lýkur 22. mars.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.