Innlent

Viðræðurnar mega ekki taka of langan tíma

Sigurður Bessason, formaður Eflingar.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar. Mynd/GVA
Helmingi fleiri fyrirtæki urðu gjaldþrota á fyrstu þremur mánuðum þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra. Formaður Eflingar segir að stjórnarmyndunarviðræður megi ekki taka langan tíma svo hægt verði að snúa þessari þróun við.

Alls voru 259 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á fyrstu þremur mánuðum þessa árs samkvæmt tölum Hagstofunnar. Á sama tíma í fyrra urðu 175 fyrirtæki gjaldþrota og er því um að ræða 48 prósenta aukningu milli ára.

98 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta í síðasta mánuði eða 20 fleiri miðað við sama mánuði í fyrra.

Eins og sést á þessu línuriti jukust gjaldþrot í aðdraganda og kjölfar bankahrunsins. Að meðaltali hafa um 70 til 80 fyrirtæki farið í þrot í hverjum mánuði síðan þá - eða 2 til 3 fyrirtæki á hverjum degi.

Í rúmlega 20 prósent tilvika er um að ræða fyrirtæki í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð.

Um 2.500 störf hafa tapast í byggingageiranum á síðustu mánuðum..

„Það er einfaldlega þannig að það er ekkert að gerast. Gjaldeyrinn er frosinn sem er grunnurinn af því að við getum unnið að því hér með fyrirtæki og starfsmenn haft hér vinnu,“ segir Sigurður Bessason formaður Eflingar.

Sigurður segir þörf á aðgerðum sem fyrst.

„Ef menn gera ekki neitt og ef menn ætla að taka vikur og mánuði í stjórnarviðræður um það hvernig stjórn eigi að setja upp þá munum við ekkert gera neitt annað en að fara neðar í samfélaginu,“ segir Sigurður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×