Innlent

Beðinn að klippa út atriði úr heimildarmynd um hrunið

Helgi Felixsson
Helgi Felixsson
Helgi Felixsson sem frumsýnir á næstu dögum heimildarmyndina, Guð blessi Ísland, segist hafa verið beittur miklum þrýstingi frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem hefur gert alvarlegar athugasemdir við viðtal sem birtist við sig í myndinni. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.

Jón Ásgeir er einn af fjölmörgum sem er í viðtali í myndinni en einnig er rætt við Bjarna Ármannsson og Björgólf Thor Björgólfsson. Í máli Helga í kvöld kom fram að Jón Ásgeir er ósáttur með upptöku sem tekin er upp án hans vitundar og sýnd er í myndinni.

Helgi sagði Jón Ásgeir hafa farið fram á að hann eyddi öllu efni með sér úr myndinni. Helgi sagðist ekki líta á þetta sem beinar hótanir en það væri undirtónninn í þeim skilaboðum sem hann hafi fengið.

„Það virðist vera þannig þegar fólk hefur ekki fulla stjórn þá fer ýmislegt úrskeiðis. Þetta er dæmi um það og ég hef valið að fara þessa leið því mér finnst hún gefa betri mynd af sannleikanum en ýmislegt sem kemur fram í þessum beinu viðtölum. Það getur síðan verið deilumál hvað má og hvað ekki, en ég hef ákveðið að fara þessa leið og stend við það," sagði Helgi.

Einnig kom fram að Helgi hefði gert samning við Jón Ásgeir áður en viðtalið var tekið. Í þeim samningi kom fram að Jón Ásgeir fengi að sjá það efni sem yrði notað í myndinni. Helgi segist hafa staðið við þann samning enda hafi hann sýnt honum það efni sem er notað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×