Innlent

Allt nötrar enn vegna Icesave

Steingrímur Sigfússon
Steingrímur Sigfússon

Enn er alls óvíst hvort ríkisábyrgð vegna Icesave-lánsins verður samþykkt á Alþingi. Til stendur að frumvarpið verði lagt fram í næstu viku.

Fram hefur komið að samþykktin velti á afstöðu Vinstri grænna. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði í fréttum í gær að það væri yfirgengilegt ábyrgðarleysi af sjálfstæðismönnum að ætla að afneita ábyrgð sinni á Icesave-málinu og greiða atkvæði gegn samningnum.

Á sama tíma sagðist Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, að öllum líkindum ætla að greiða atkvæði gegn samningnum. Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra hefur sagst mjög efins um samninginn, líkt og tveir þingmenn flokksins til viðbótar.

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar, sagði Ísland dæmast til einangrunar ef samningnum yrði hafnað. Hann tók þar með undir orð Þórólfs Matthíassonar hagfræðiprófessors, sem sagði í Fréttablaðinu í gær að það væri glapræði og óábyrgt að ætla að greiða atkvæði gegn samningnum.

Þá sagði Sigurður Líndal lagaprófessor að Alþingi yrði að samþykkja samninginn, eins og hver önnur sigruð þjóð. Jón Daníelsson, hagfræðiprófessor í London, segir hins vegar að Alþingi eigi að hafna samningnum. Nú, þegar betur árar í Evrópu, væri hægt að ná betri samningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×