Enski boltinn

Abramovich skilur ekki enska boltann

Elvar Geir Magnússon skrifar
Abramovich og Guus Hiddink, starfandi knattspyrnustjóri Chelsea.
Abramovich og Guus Hiddink, starfandi knattspyrnustjóri Chelsea.

Ian Wright, fyrrum markahrókur og núverandi pistlahöfundur The Sun, telur Roman Abramovich eiga sök á öllum þeim óróa sem ríkir hjá Chelsea. Hann segir Abramovich ekki hafa skilning á enska boltanum.

„Það er oft sagt að leikmaður eða knattspyrnustjóri sé aldrei stærri en sjálft félagið. Það sama á við um eigendur. Einhver hjá Chelsea ætti að segja Roman Abramovich það, ég efast þó um að einhver þori því," segir Wright í nýjasta pistli sínum.

„Það er vel við hæfi að Chelsea leiki gegn Aston Villa um næstu helgi. Þarna eru tvö lið sem hafa erlenda eigendur en virðast á leið í sitthvora áttina. Annar eigandinn virðist hafa skilning á enska boltanum á meðan hinn, þrátt fyrir að hafa átt félagið í sex ár, virðist enn ekki skilja um hvað enski boltinn snýst."

Wright segir Chelsea eiga betra skilið en bráðabirgðastjóra. Sannleikurinn sé sá að Abramovich hafi gert stór mistök þegar hann lét Jose Mourinho fara. „Síðan þá hefur allt verið á niðurleið hjá Chelsea. John Terry fyrirliði er augljóslega óánægður með nokkra liðsfélaga sína og stemningin í búningsklefanum er farin. Það er ekki hægt að kenna leikmönnum um, þetta er Abramovich að kenna," skrifar Wright.

Wright spyr sig hvort áhugi Abramovich á Chelsea fari minnkandi og bendir á að hann mætir alls ekki eins oft á leiki og hann gerði fyrstu árin. Wright er þó ekki bara neikvæður í pistli sínum, hann hrósar Aston Villa mikið og sérstaklega eigandanum Randy Lerner.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×