Enski boltinn

Zola vill að Neill fái nýjan samning

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lucas Neill, leikmaður West Ham.
Lucas Neill, leikmaður West Ham. Nordic Photos / Getty Images

Gianfranco Zola vill að varnarmaðurinn Lucas Neill fái nýjan samning við West Ham þó svo að hann sé með launahæstu leikmönnum félagsins.

Neill var fenginn til West Ham þegar að Eggert Magnússon var stjórnarformaður félagsins. Mikið var fjallað um komu hans til félagsins á sínum tíma þar sem hann hafnaði Liverpool og valdi að fara til West Ham.

Talið er að það sé vegna þess að West Ham bauð honum hærri laun en Liverpool. Nú eru hins vegar breyttir tímar hjá West Ham og óvíst að félagið geti boðið honum sömu launakjör nú.

Zola telur hins vegar að Neill sé hverrar krónu virði. „Hann hefur verið félaginu gríðarlega mikilvægur síðan hann kom. Hann hefur verið frábær bæði innan vallar sem utan. Hvað mig varðar er hann einn af þeim leikmönnum sem verðskuldar að fá þann pening sem honum er borgað. Ég er mjög áhugasamur um að hann fái nýjan samning."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×