Enski boltinn

Ekkert athugavert við félagaskipti Arshavin

NordicPhotos/GettyImages

Talsmaður ensku úrvalsdeildarinnar staðfesti í samtali við BBC í morgun að niðurstaða fundar með forráðamönnum liða í deildinni hefði leitt í ljós að ekkert óeðlilegt hefði verið við félagaskipti Andrei Arshavin til Arsenal í vikunni.

Kaup Arsenal á leikmanninum frá St. Pétursborg í Rússlandi töfðust um sólarhring eftir að leikmannaglugginn lokaðist og settu m.a. forráðamenn Aston Villa spurningamerki við þennan seinagang.

Í tilkynningu frá úrvalsdeildinni kom fram að allir pappírar hefðu borist á réttum tíma fyrir hver einustu félagaskipti í úrvalsdeildinni.

Arshavin gæti fengið sæti í hóp Arsenal fyrir grannaslaginn gegn Tottenham um helgina, en hann er ekki í sérstöku leikformi þar sem leiktíðinni í Rússlandi lauk í nóvember sl.

Arshavin hefur fengið frí frá skyldum sínum með rússneska landsliðinu í næstu viku til að gefa sér tíma til að komast inn í málin hjá enska liðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×